Mögnuð maí útgáfa
Ýmsar nýjungar litu dagsins ljós í maí útgáfu Kjarna. Hér verða nefndar þær helstu

Nýr og endurbættur umsóknarvefur
Búið er að útfæra alveg nýjan umsóknarvef fyrir Kjarna. Farið var í umfangsmikla þarfagreiningu með viðskiptavinum í formi rýnihópa. Kjarnateymið er gríðarlega þakklátt fyrir góðar viðtökur viðskiptavina í þessum rýnihópum því það er mikilvægt að fá endurgjöf frá notendum kerfisins svo nýjungarnar séu örugglega að nýtast viðskiptavinum sem best.
Í framhaldi rýnihópa var farið í hönnunarferli á breytingunum og í framhaldi notendaprófanir á hönnuninni, áður en farið var af stað í forritun. Við vitum að viðskiptavinir hafa beðið með eftirvæntingu eftir nýja umsóknarvefnum sem lítur dagsins ljós í maí útgáfunni af Kjarna. Með nýja umsóknarvefnum er umsóknarferlið fyrir umsækjandann enn einfaldara og þægilegra en áður var auk þess sem útlit vefsins er mun betra en útlit eldri vefs.
Auglýsingagerðin hefur einnig verið einfölduð svo það ferli er allt mun þjálla fyrir þá aðila sem vinna í ráðningum. Samhliða þessum breytingum var einnig bætt við möguleikanum á að tengja fylgigögn/viðhengi á auglýsingarnar.

Snjallforrit Kjarna bætir aðgengi fyrir allt starfsfólk
Starfsmannavefur Kjarna hefur verið hluti af lausninni frá upphafi. Hann er aðgengilegur í tölvu og einnig hægt að skrá sig inn í hann í vafra í síma. Til þess að gera aðgengið enn betra fyrir það starfsfólk viðskiptavina Kjarna sem ekki vinnur við tölvu var ákveðið að ráðast í smíði á snjallforriti fyrir Kjarna. Þetta nýja snjallforrit mun innihalda alla þá fjölbreyttu virkni sem Starfsmannavefurinn býður upp á.
Sem dæmi um það sem starfsfólk getur gert í snjallforritinu er leitað að samstarfsfólki, séð yfirlit yfir orlofsstöðu, sent inn orlofsbeiðni, stimplað sig inn og út, sótt um líkamsræktar- og samgöngustyrk, uppfært bankareikninginn sinn og margt fleira.
Það er von okkar að þetta bæti aðgengi alls starfsfólks að þeim upplýsingum sem Kjarni heldur utan um og létti þannig enn frekar á mannauðs- og launadeildum.

Tenging við Eloomi Infinite svo ekki þurfi að margskrá gögn
Kjarni býður upp á tengingu við rafrænu fræðslulausnina Eloomi en þar sem Eloomi fór í að skrifa alveg nýja lausn, Eloomi Infinite, þá virkaði sú tenging ekki fyrir þá lausn.
Hluti af viðskiptavinum Kjarna hefur tekið ákvörðun um að færa sig yfir í þessa nýju lausn frá Eloomi. Þessir viðskiptavinir Kjarna eru vanir því að gögn við stofnun starfsmanns í Kjarna flæði yfir í Eloomi og ekki þurfi að margskrá sömu upplýsingar. Það væri því afturför að missa slíka tengingu og því var farið í smíði á sambærilegri tengingu við nýja Eloomi Infinite kerfið.
Einfaldari skráning starfsloka
Á Kjarnavef er möguleiki fyrir stjórnendur, ásamt mannauðs- og launadeildum, að skrá inn nýtt starfsfólk, endurráða það, skrá á það tilfærslu í annað starf eða ráðningu í viðbótarstarf. Það hefur aftur á móti ekki verið á sama stað aðgengi að því að skrá inn starfslok á starfsfólk.
Þeirri virkni hefur nú verið bætt inn á Kjarnavefinn þannig að stjórnandi, eða mannauðs- og launadeild, geti skráð inn starfslokadag og síðasta útborgunarmánuð og sér Kjarni þá um að setja endadag á viðeigandi upplýsingar.
Uppfyllir starfsfólk kröfur starfsins?
Í Kjarna hefur frá upphafi verið hægt að skrá á starfsfólk þá hæfni og réttindi sem það hefur aflað sér. Einnig hefur lengi verið hægt að skrá á stöður þær kröfur sem þær gera um hæfni og réttindi. Það hefur þó vantað betra yfirlit til að sjá hversu vel starfsfólk uppfyllir kröfur starfsins.
Nú hefur slíku yfirliti verið bætt við Kjarnavefinn. Þar er nú einfalt að velja tiltekna stöðu, sjá yfirlit yfir alla þá einstaklinga sem sinna þeirri stöðu og hvernig þeir standa gagnvart þeirri hæfni og þeim réttindum sem staðan þeirra gerir kröfur um.
Þetta er yfirlit sem er t.a.m. hægt að sýna úttektaraðilum ef þeir spyrja út í tiltekna starfsmenn eða stöður auk þess sem stjórnendur geta þarna haft gott yfirlit yfir starfsmannahópinn sinn.
Í yfirlitinu eru litir sem sýna hvort viðkomandi hæfni/réttindi séu í gildi, útrunnin, við það að renna út eða mögulega alls ekki til staðar. Í yfirlitinu er líka hægt að gera breytingar á skráningum, ef það á við.
Samhliða þessum breytingum er nú hægt að viðhalda öllum stofngögnum fyrir hæfni og réttindi á Kjarnavefnum.

Starfsfólk fái íþróttastyrk greiddan sem fyrst eftir umsókn
Starfsfólk hefur lengi getað sótt um íþróttastyrk í gegnum Starfsmannavef Kjarna. Til þess að tryggja að engar umsóknir detti á milli þegar launavinnsla er hafin, og starfsfólk er mögulega enn að sækja um íþróttastyrk, þá gat oft liðið rúmur mánuður þar til starfsfólk fékk líkamsræktarstyrkinn greiddan.
Í maí útgáfunni hafa verið gerðar breytingar á þessu ferli þannig að það miði við launatímabil fyrirtækisins og ef sótt er um líkamsræktarstyrk innan launatímabils þá greiðist hann út með þeirri útborgun. Aftur á móti ef sótt er um eftir að launatímabili lýkur þá greiðist styrkurinn út með næstu útborgun þar á eftir.

Starfsmenn í fleiri en einu starfi sjái allar launaupplýsingar
Starfsmenn geta séð ákveðnar launaupplýsingar á Starfsmannavef Kjarna, s.s. upplýsingar um bankareikning, lífeyrissjóði, stéttarfélag og persónuafslátt. Ef starfsmaður er í fleiri en einu starfi þá birtust þessar upplýsingar m.v. aðallaunamannanúmer starfsmanns en nú hefur því verið bætt við að starfsmaðurinn getur séð þessar upplýsingar fyrir hvert og eitt starf sem hann gegnir.

Möguleiki á að senda tilkynningu um fjarveru á tímastjóra eða næsta yfirmann
Það hefur verið eftirspurn frá viðskiptavinum að Kjarni sendi tilkynningu á tímastjóra eða næsta yfirmann þegar starfsmaður skráir á sig ákveðnar fjarverutegundir í Viðveruhluta Kjarna. Þessari virkni hefur verið bætt við í maí útgáfunni og er hægt að stilla þetta fyrir hvern viðskiptavin fyrir sig þannig að viðskiptavinir geta valið fyrir hvaða viðveru- eða fjarverutegundir Kjarni á að senda slíka pósta.
Kjarna vöruhús og bætt sýn á launaáætlunargögn í Power BI
Útfært hefur verið vöruhús gagna fyrir Kjarna. Vöruhúsið er sérstaklega hentugt fyrir stærri viðskiptavini í Kjarna sem sækja mikið magn gagna. Viðskiptavinir geta fengið aðgang að vöruhúsinu og tilbúnum Power BI skýrslugerðarpakka ofan á vöruhúsið.
Launaáætlunargögnum hefur nú verið bætt við Power BI skýrslugerðarpakkann fyrir vöruhúsið sem bætir sýn á þau gögn og einfaldar frekari greiningu gagnanna.

Atriði til þægindarauka í launaáætlun
Nokkrum atriðum hefur verið bætt við í Launaáætlun í Kjarna til þægindarauka fyrir notendur.
Skýrslur fyrir áætlun. Nú er hægt að nálgast skýrslur launaáætlunar beint úr skráningarmynd áætlunar
Valskjár fyrir skráningarmynd. Bætt hefur verið við möguleika á að kalla fram valskjá fyrir skráningarmynd launaáætlunar. Þessi virkni er hugsuð fyrir aðra en stjórnendur. Þessir aðilar hafa oft aðgang að stórum hluta launaáætlunarinnar og gott fyrir þá að geta takmarkað niðurstöðuna við ákveðnar einingar með því að kalla fram valskjáinn.
Tími og einingar í launaáætlunarlista. Því hefur verið bætt við að nú er hægt að velja hvoru tveggja, tíma og einingar, samtímis inn í launaáætlunarlistann.
Enn meiri sveigjanleiki í aðgangsstýringu að launaþróun starfsfólks
Launaþróunarlistinn á Kjarnavefnum vinnur á aðgangsstýringum notenda og var upphaflega hugsaður fyrir stjórnendur þar sem hann les hvar stjórnandi er í skipuriti og gefur honum aðgang að launaþróun þess starfsfólks sem heyrir undir hann.
Eitthvað er um annars konar aðgangsstýringar þar sem notendum er t.d. gefinn aðgangur að launum allra starfsmanna í tilteknum skipulagseiningum og/eða fyrirtækjum. Launaþróunarlistanum hefur nú verið breytt þannig að hann styðji líka þess háttar aðgangsstýringar og að þeir aðilar geti tekið út launaþróun þess starfsfólks sem þeir hafa aðgang að.

Bætt virkni í Launum
Launaliður á launaseðli. Svæðið Launaliður á launaseðli hefur verið virkjað þannig að nú er hægt að nýta það til að stýra birtingu launaliða á launaseðli, t.d. með því að draga saman á launaseðli ákveðna launaliði.
Fagaldur sýnilegur í launatöflum. Ef fagaldur er tengdur á launatöflu þá er núna sýnilegra fyrir notandanum en áður var og þannig einfalt að sjá á hvaða launatöflur fagaldur er skráður.
Launafulltrúar í lista. Upplýsingum um launafulltrúa hefur verið bætt inn í hina ýmsu lista og valskjái í Kjarna client. Þetta er til þægindarauka fyrir þá viðskiptavini sem eru með marga launafulltrúi sem allir vinna með ákveðna starfsmannahópa.
Viðbætur við Vinnustundartengingu
Orlofsprósenta. Orlofsprósenta starfsmanns flyst núna frá Kjarna yfir í Vinnustund.
Svið. Nú er hægt að senda öll svið yfir í Vinnustund, til viðbótar við skipulagseiningar, fyrirtæki og önnur stofngögn sem áður hefur verið hægt að senda yfir í Vinnustund frá Kjarna.
Sjá nánar upplýsingar um öll atriði í maí útgáfunni í útgáfulýsingu.