Meiri sveigjanleiki og aukin þægindi í desemberútgáfu Kjarna

Í desemberútgáfu Kjarna eru fjölbreyttar nýjungar sem miða að því að auka skilvirkni og einfalda dagleg störf.
Útgáfan inniheldur meðal annars virkni sem býður upp á innskráningu með rafrænum skilríkjum, skráningu í mat fram í tímann og aukinn sveigjanleika í flokkun starfa.

16. desember 2024

Innskráning með rafrænum skilríkjum

Möguleiki á innskráningu notenda með rafrænum skilríkjum hefur nú litið dagsins ljós í Kjarna. Stór hluti viðskiptavina hefur lengi verið með sjálfvirka innskráningu í Kjarna út frá Windows notanda starfsmanns (Azure AD SSO – Single Sign On) en einhverjir viðskiptavinir eru með hóp starfsfólks sem er ekki með Windows notanda og hentar því innskráning með rafrænum skilríkjum einkar vel fyrir þann hóp.

Þessi nýi innskráningarmöguleiki hefur verið útfærður fyrir Starfsmannavefinn, Kjarnavefinn (stjórnendavefinn) og snjallforrit Kjarna.

Aukin þægindi og minni matarsóun með skráningu í mat fram í tímann

Ný viðbót í snjallforriti Kjarna gerir starfsfólki kleift að skrá sig í mat fram í tímann. Rekstraraðilar mötuneyta geta þannig betur áætlað fjölda starfsfólks í mat og lagt sitt af mörkum til að draga úr matarsóun. 

Starfsfólk getur valið þá daga sem það ætlar að vera í mat og séð yfirlit yfir það. Rekstraraðilar mötuneyta sjá hversu margir verða í mat hvern dag fyrir sig og geta þannig betur áætlað magnið.

Til viðbótar við skráningar fram í tímann þá getur starfsfólk séð yfirlit yfir liðin skipti sem þau hafa verið í mat ásamt yfirliti yfir kaup í verslun, ef það á við.

Sjálfsafgreiðsla í mataráskrift

Almennt þarf starfsfólk að hafa samband við launafulltrúa til þess að skrá sig í eða úr mataráskrift. Með nýjum eiginleika í snjallforriti Kjarna hefur það ferli verið einfaldað þar sem starfsfólk getur sjálft skráð sig í eða úr mat. Það er stillingaratriði fyrir hvern og einn viðskiptavin hvort starfsfólk skráist strax í og úr mat eða hvort skráning taki gildi um mánaðarmót.

Í snjallforritinu getur starfsfólk auk þess séð hvort það sé skráð í áskrift eða ekki.

Möguleiki á að flokka stöður

Sumir viðskiptavinir Kjarna vilja geta flokkað saman þær stöður sem eiga ákveðna hluti sameiginlega. Nýju svæði hefur því verið bætt á stöður í Kjarna þar sem viðskiptavinir geta sett upp sína eigin flokka og flokkað stöðurnar eftir því.

Þetta getur verið hentugt til þess að geta flokkað saman þær stöður sem eiga eitthvað tiltekið sameiginlegt og þannig er hægt að taka út yfirlit yfir allt starfsfólk sem tilheyrir stöðum með sömu flokkun.

Stuðningur við mismunandi vinnuskilgreiningar innan sama samnings

Tengt viðveruhluta Kjarna er hægt að tengja vinnuskilgreiningar á kjarasamninga þar sem skilgreint er á hvaða tímum/dögum ákveðinn álagsútreikningur á við.

Þar sem það getur komið upp að mismunandi vinnutímaskilgreiningar eigi við um starfsfólk sem fær greitt eftir sama kjarasamningi hefur verið bætt við möguleika á að merkja vinnutímaskilgreiningar á samningum eftir mismunandi hópum og skilgreina í viðveruregluspjaldi starfsmanns hvaða hópi hann tilheyrir.

Sundurliðun starfsmatsstiga á störf

Sveitarfélög í Kjarna hafa lengi getað skráð heildarfjölda starfsmatsstiga á stöður í Kjarna. Nú hefur verið farið lengra í stuðningi við skráningu starfsmatsstiga þar sem hægt er að skrá sundurliðuð starfsmatsstig á störf í Kjarna og þaðan erfist heildarstigatalan svo inn á stöðuna. Þetta er til þægindarauka fyrir sveitarfélögin sem þá geta séð sundurliðunina í Kjarna, til viðbótar við heildarstigatöluna.

Hafa samband

Opið virka daga frá kl. 9.00 – 16.00

Póstlisti Kjarna

Fáðu sendar upplýsingar um námskeið, viðburði og nýjungar í Kjarna.

Copyright 2025 @ Kjarni by Origo Group. All rights reserved.