Meiri skilvirkni í ágúst útgáfu Kjarna
Haustin eru tími launaáætlunargerðar og eru ýmis atriði tengd launaáætluninni í ágúst útgáfu Kjarna.

Aukin þægindi í launaáætlun
Til þægindaauka hefur verið bætt við aðgerð sem gerir notendum kleift að afrita launamann í launaáætlun út frá eldri launamanni, í stað þess að stofna nýjan launamann frá grunni.
Í launaáætlun á Kjarnavef hefur verið bætt við möguleika á að reikna marga launamenn í einu lagi eftir að gerðar hafa verið breytingar, en áður þurfti að reikna hvern og einn launamann eftir að breytingar voru gerðar. Einnig hefur verið bætt inn möguleika á að taka dálkalista fyrir áætlun út í Excel.
Sveitarfélögin vinna meira með starf en stöðu og hefur því verið bætt inn möguleika á að birta starf í stað stöðu í skráningarmynd launaáætlunar.
Umfangsmiklar breytingar voru gerðar á launaáætluninni þar sem núna hægt er að festa skipurit við stofnun launaáætlunar svo tilfærslur yfir á aðrar skipulagseiningar og kostnaðarstöðvar hafi ekki áhrif á launaáætlunina. Samhliða því voru útfærðar algjörlega nýjar aðgangsstýringar út frá kostnaðarstöðvum, til viðbótar við eldri skipuritsaðgangsstýringar.
Í tengslum við þessar breytingar með að festa skipuritið var eftirfarandi útfært:
Listi sem sýnir hvaða einstaklingar eru með aðra kostnaðarstöð í áætlun en í raun.
Aðgerð til að uppfæra kostnaðarstöð í launaáætlun, t.d. ef tvær einingar sameinast og uppfæra þarf skráningar á starfsfólki í takt við það.

Viðbótarvirkni í snjallforrit Kjarna
Nýtt snjallforrit Kjarna leit dagsins ljós í maí útgáfu Kjarna 2024. Ýmis viðbótarvirkni bætist í snjallforritið nú í ágúst útgáfunni en allt er þetta virkni sem áður hefur verið til staðar á Starfsmannavefnum.
Í snjallforritinu getur starfsfólk nú:
Séð yfirlit yfir launaseðlana sína
Sent inn dagpeningabeiðni
Séð yfirlit yfir mötuneytis- og verslunarfærslur sínar
Séð og smellt á helstu hlekki sem skipta máli innan fyrirtækisins
Endursett lykilorðið sitt
Einnig hefur verið bætt við möguleika á að láta tölvupósta sendast á tímastjóra eða næsta yfirmann þegar tímafærslur eru skráðar í snjallforritið.

Ný vefþjónusta fyrir samandregnar launaupplýsingar niður á skipulagseiningu
Útfærð hefur verið ný vefþjónusta sem skilar samandregnum launaupplýsingum niður á kostnaðarstöð og skipulagseiningu. Eldri vefþjónustur fara ekki eins djúpt, þar sem þær fara niður á kostnaðarstöð og fyrirtæki, en þessi nýja vefþjónusta fer alveg niður á skipulagseiningu. Þegar gefinn er aðgangur að þessari vefþjónustu er aðgangurinn takmarkaður við ákveðið/áveðin fyrirtæki.
Ytri aðilum gefinn aðgangur að því að stofna nýja einstaklinga fyrir mötuneyti
Nokkrir viðskiptavinir í Kjarna reka mötuneyti þar sem þeir veita ytri aðilum aðgang að mötuneytinu. Það eru reglulega breytingar á starfsmannahópi þessara ytri aðila og tímasparnaður fyrir rekstraraðilana að ytri aðilarnir geti sjálfir verið sjálfbjarga með að óvirkja þá starfsmenn sem láta af störfum, og hætta að borða í mötuneytinu, og stofna inn nýja starfsmenn sem hefja störf, og koma til með að borða í mötuneytinu.
Nýrri aðgangsstýringu hefur því verið bætt við mötuneytislausn Kjarna þar sem hægt er að gefa ytri aðilum aðgang að því að stofna og óvirkja aðila sem tilheyra þeirra fyrirtæki. Þessi aðgangur gefur ytri aðilunum líka möguleika á að sjá mötuneytisfærslur þeirra aðila sem þeim tilheyra og geta þannig á einfaldan hátt stemmt þær af við þá reikninga sem þeir fá frá rekstraraðila mötuneytisins.

Kjarakönnun Intellecta með vefþjónustu
Kjarakönnun Intellecta hefur lengi verið til staðar í Kjarna og hafa notendur hingað til tekið hana út í Excel og sent á Intellecta. Intellecta býður nú upp á vefþjónustur fyrir móttöku gagnanna og hefur þeirri virkni því verið bætt við Kjarna að hægt sé að senda skýrsluna beint úr Kjarna til Intellecta í gegnum vefþjónustur.
Ýmsar aðrar viðbætur
Ýmsar smærri viðbætur hafa auk þess bæst við í ágúst útgáfu af Kjarna og má þar m.a. nefna:
Að notendur með ótakmarkaðan aðgang geta nú séð yfirlit yfir allt samþykkt orlof, en áður gátu eingöngu stjórnendur séð yfirlit yfir samþykkt orlof í sínu teymi.
Að viðskiptavinir geta valið að birta starf í staðinn fyrir stöðu á launaseðli starfsmanns.
Að hægt er að senda út sjálfvirkar áminningar út frá dagsetningunni „Stofnað þann“ en ekki bara gildistíma gagnanna.
Að Kjarni uppfærir nú kyn í Vinnustund ef það breytist í Kjarna auk þess sem Vinnustund getur nú tekið á móti kyninu kynsegin frá Kjarna.